Krabbamein í blöðruhálskirtli (prostate cancer) er algengasta krabbamein í íslenskum karlmönnum. Árlega greinast um 200 karlar með sjúkdóminn hér á landi og er það rétt tæplega þriðjungur af öllum krabbameinstilfellum í karlmönnum.
Helstu áhættuþættir
Helstu áhættuþættir krabbameins í blöðruhálskirtli eru aldur og erfðaþættir. Áhætta eykst með aldri en meðalaldur við greiningu hérlendis er 69 ár. Erfðaþættir gegna umtalsverðu hlutverki en rannsóknir sýna að nánir ættingar (einkum bræður og synir) sjúklinga með sjúkdóminn eru í aukinni áhættu á að fá hann (1). Aðrir áhættuþættir eru m.a. hormónabúskapur (magn kynhormóna) og mataræði, en niðurstöður eru nokkuð misvísandi varðandi mikilvægi þeirra (2-3).
Lífshorfur og meðferð
Lífshorfur íslenskra karla með sjúkdóminn hafa batnað verulega á síðustu áratugum og eru um 90% þeirra á lífi fimm árum eftir greiningu (www.krabbameinsskra.is). Þrátt fyrir framfarir í greiningu og meðferð meinsins þá er krabbamein í blöðruhálskirtli önnur algengasta dánarorsök af völdum krabbameina á Íslandi en árlega deyja um 50 karlmenn af völdum þess.
Meðferð og horfur sjúklinga með blöðruhálskirtilskrabbamein ráðast einkum af því hversu snemma meinið greinist. Engin skipulögð hópleit að sjúkdómnum er í gangi á Íslandi. Hinsvegar er algengt að karlmenn sem komnir eru yfir miðjan aldur láti mæla styrk PSA-próteins í blóði en aukið magn þess getur verið vísbending um krabbamein í blöðruhálskirtli. Rétt er þó að taka fram að slík hækkun getur verið af öðrum orsökum en krabbameini, m.a. ákveðnum erfðaþáttum (4).
Rannsóknir Íslenskrar erfðagreiningar
Íslensk erfðagreining (ÍE) hefur um árabil, í samstarfi við Krabbameinsskrá og ýmsa sérfræðinga á Landspítala, unnið að rannsóknum á erfðum blöðruhálskirtilskrabbameins. Um það bil 3.600 karlmenn sem greinst hafa með sjúkdóminn hafa tekið þátt í þessum rannsóknum frá upphafi.
Einnig hefur ÍE verið virkur þáttakandi í alþjóðlegu samstarfi með evrópskum og amerískum rannsóknarhópum. Þetta samtarf hefur tryggt að uppgötvanir gerðar á Íslandi hafa verið sannreyndar fljótt og örugglega erlendis og mikilvægi þeirra þannig staðfest.
Niðurstöður rannsóknanna hafa gefið skýrari mynd af hlutverki erfðaþátta í blöðruhálskirtilskrabbameini á Íslandi. Þær hafa leitt til uppgötvunar á 13 erfðabreytingum sem tengjast aukinni áhættu á sjúkdómnum og hafa niðurstöðurnar verið birtar í alþjóðlegum vísindaritum (6-13).
Stökkbreytingar sem auka áhættu
Á Íslandi hafa m.a. fundist stökkbreytingar í 2 genum, sem nefnd eru HOXB13 og BRCA2. Þær valda marktækt aukinni áhættu á blöðruhálskirtilskrabbameini og breytingin í BRCA2 veldur jafnframt verri batahorfum (5-6). Þessar stökkbreytingar eru sjaldgæfar og finnast einungis í innan við 1% af karlmönnum á Íslandi. Þær útskýra því einungis lítinn hluta af öllum tilfellum sjúkdómsins. Síðastliðinn áratug hefur líka fundist talsverður fjöldi erfðabreytinga sem hver og ein veldur vægri aukningu í áhættu á krabbameini í blöðruhálskirtli. Í litlum hluta karlmanna geta margar þessara breytinga fundist og er talið að sameiginleg áhrif þeirra geti valdið umtalsverðri áhættuaukningu.
Leitað leiða til að bæta greiningu og meðferð
Markmið rannsókna sem þessara er að auka skilning á eðli sjúkdómsins og leita þannig leiða til að bæta greiningu og meðferð hans. Með þeim fjölda erfðabreytileika sem fundist hafa á síðustu árum er hægt að finna þá einstaklinga sem eru í mestri áhættu á að fá sjúkdóminn. Notkun þessara upplýsinga í viðbót við þær greiningaraðferðir, sem eru í notkun í dag, á eftir að bæta horfur þeirra sem greinast með sjúkdóminn í framtíðinni. Hinsvegar er enn verulegur hluti arfgengrar áhættu óútskýrður og því er nauðsynlegt að halda rannsóknarstarfi sem þessu áfram af fullum krafti.
Greinar sem vísað er í:
1 http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/156304702 http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/221583273 http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/115888574 http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/211600775 http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/175651576 http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/231040057 http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/166829698 http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/174013669 http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/1760348510 http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/1826409811 http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/1976775412http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/1915171713 http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/21946351
Meira um blöðruhálskirtilskrabbamein:
Grein sem birtist á veg Íslenskrar erfðagreiningar (Yfirfarið í nóvember 2016)
Hashtag your posts
Love to #hashtag? Good news!
You can add tags (#vacation #dream #summer) throughout your posts to reach more people. Why hashtag? People can use your hashtags to search through content on your blog and find the content that matters to them. So go ahead and #hashtag away!
Σχόλια