Lyonsklúbbur Grindavíkur hafði samband og vildi fá fræðslu um krabbamein í blöðruhálskirtli. Við Guðmundur G. Hauksson framkvæmdastjóri, Guðmundur Páll Ásgeirsson og Stefán Stefánsson frá Krabbameinsfélaginu Framför fórum í heimsókn til þeirra 21. mars s.l. og sátum með þeim í borðhaldi og á þeirra kvöldfundi. Það var verulega áhugavert að heyra frá því mikla starfi sem klúbburinn stendur fyrir, þeim stóru fjáröflunum sem þeir eru með og metnaðarfullum stuðningi við fjölbreytta þætti í samfélaginu.
Við vorum síðan með um klukkutíma erinindi þar sem við kynntum starfsemina hjá Krabbameinsfélaginu Framför, okkar samfélag og félagsstarf og að lokum hvernig það er að upplifa krabbamein í blöðruhálskirtli. Einnig var farið yfir það hvenær þarf að byrja að fylgjast með PSA mælingu til að stuðla að snemmgreiningu á þessu krabbameini.
Að erindi okkar loknu fengum við gott klapp og miklar þakkir fyrir áhugaverða fræðslu um krabbamein í blöðruhálskirtli. Erlingur formaður Lyons klúbbsins í Grindavík afhennti síðan Guðmundur Páli Ásgeirssyni varaformanni Framfara fána klúbbsins.
Comments