Hér fer á eftir viðtal við Hinrik Greipsson sem greindist með krabbamein í blöðruhálskirtli um mitt ár 2006 hann fór til Svíþjóðar í meðferð sem nefnist Innri geislun (Brachy Therapy). Hinrik féllst á að segja lesendum Heilsuhringsins frá meðferðinni og ástæðum þess að hann fór til útlanda að sækja sér lækningu.
Nú fær Hinrik orðið: ,,Það atvikaðist þannig að ég var með slæmt kvef og hafði farið til heimilislæknis í tvígang með stuttu millibili. Í bæði skiptin sendi hann mig í blóðprufu þar sem hann merkti við að mælt yrði PSA í blóðinu og tók eftir því í seinna skiptið að PSA hafði hækkað úr 6.5 í 8.5. Þá sendi hann mig til Guðmundar Vikars þvagfæraskurðlæknis, sem sendi mig í sýnatöku. Í ljós kom að krabbamein greindist í þrem af átta sýnum sem tekin voru úr blöðruhálskirtlinum. Guðmundur sendi mig til Jóns Hrafnkelssonar geislasérfræðings, sem kynnti fyrir mér þær leiðir sem í boði eru hérlendis, þ.e. skurðaðgerð, ytri geislameðferð eða gera ekkert og vera undir eftirliti.
Hann sagði mér strax að ég gæti hugsað málið vel og vandlega, þetta væri ekki bráða tilfeli. Ég lagðist því í skoðun á meðferðarúrræðum á internetinu. Þar reyndist vera frumskógur upplýsinga. Á þeim tíma vissi ég akkúrat ekkert um blöðruhálskirtilskrabbamein (BHKK). Ég hafði fengið bækling um BHKK hjá Guðmundi í upphafi en þegar ég var búinn að skoða þessi mál í 2 til 3 mánuði leist mér best á meðferð sem heitir ,,Brachy Therapy“ eða Innri geislun. Mér virtist minnst áhætta á aukaverkunum af þeirri leið, en vandamálið var að þessi leið var þá ekki í boði á Íslandi.
Ég hafði sagt ættingjum og vinum strax frá því að ég hefði greinst með BHKK og allir voru hjálpsamir að benda mér á greinar og upplýsingar á netinu. Vinkona okkar hjóna sagði mér að skólasystir hennar Margrét Einarsdóttir væri starfandi læknir í Lundi í Svíþjóð og sérfræðingur í innri geislun. Ég talaði Margréti sem setti sig síðan í samband við Jón Hrafnkelsson og fékk allar upplýsingar um mig. Í ljós kom að ég var ,,kandidat“ í þessa meðferð.
Það eru ákveðnar mælistikur sem þarf að skoða t.d. má PSA ekki vera yfir 10 og ,,Gleason score“ má ekki vera yfir 3 plús 3. Þá má stærð (rúmmál) kyrtilsins ekki vera yfir ákveðinni stærð. Kirtillinn hjá mér var aðeins yfir stærðarmörkum, en Margrét sendi mig í geisla á Landspítalanum þar sem geislað var á brjóstkyrtlana og þeir teknir úr sambandi þannig að ég yrði ekki fyrir brjóstastækkun vegna þess að ég þurfti að taka inn kvenhormónalyf til þess að minnka blöðruhálskirtilinn.
Meðferðin
Ég fór svo í aðgerðina í janúar 2007 til Svíþjóðar sem fólst í því að sett eru geislavirk korn beint inn í kirtilinn og kornunum raðað þar eftir kúnstarinnar reglum. Maður er svæfður og tekur aðgerðin 3 til 4 tíma. Tveim nálum er stungið beint inn í kirtilinn á svæðinu milli pungs og endaþarms. Það er misjafnt hvað mörgum kornum er komið fyrir – allt frá einu upp í fimm á hverja stungu. Þessum tveim nálum er stungið um 20 sinnum í kyrtilinn og voru sett 68 geislavirk korn í mig í aðgerðinni. Kornin gefa frá sér geisla í um átta mánuði og drepa allar frumur sem eru að skipta sér. Kirtillin verður nánast eins og örvefur og hættir að gefa frá sér sæðisvökva, sem er hans hlutverk við fullnægingu.
Tíminn sem í þetta fór var ekki langur ég kom í viðtal til Margrétar á mánudegi til skoðunar og blóðprufu og þess háttar, mætti svo kl. 8 á þriðjudagsmorgni og var aðgerðin yfirstaðin uppúr hádegi. Ég gekk svo út af spítalanum fyrir hádegi daginn eftir. Fann ekki fyrir neinu, en Margrét var búin að segja mér að taka því rólega út vikuna og sagði að sennilega myndi það eina sjáanlega eftir aðgerðina vera marblettur á rassinum. Sem ég gáði reyndar aldrei að!
Grein sem birtist í Læknablaðinu árið 2012 segir að nú sé Innri geislun framkvæmd á Íslandi. Hér fylgir slóðin:
Minna inngrip en með skurðaðgerð – um geislun við blöðruhálskrabba
Comments