Prostate cancer in three Nordic countries - The impact of diagnostic and therapeutic strategies on incidence, trends in clinical presentation and management (doktorsritgerð Inga Jóna Ingimarsdóttir - Háskóli Íslands, Reykjavík).
Blöðruhálskirtilskrabbamein er í dag algengasta krabbamein meðal karlmanna bæði á Íslandi og í Danmörku. Í byrjun 10. áratugar síðustu aldar kom fram á sjónarsviðið svokallað PSA-blóðpróf. PSA er stytting á heitinu prostate specific antigen en það er sameind sem blöðruhálskirtilinn framleiðir. Hækkað blóðgildi PSA getur gefið til kynna að blöðruhálskrabbamein sé til staðar. PSA er hins vegar ekki sértækt fyrir krabbamein og getur einnig mælst hækkað í öðrum algengum kvillum í blöðruhálskirtlinum s.s. bólgu og góðkynja stækkun. Fljótlega eftir innleiðingu PSA-blóðprófsins kom í ljós að norrænir heilbrigðisstarfsmenn notuðu prófið mismikið til að greina blöðruhálskirtilskrabbamein á frumstigi.
Öll Norðurlöndin búa yfir lýðgrundaðri krabbameinskrá. Faraldsfræðilegar rannsóknir, byggðar á gögnum úr þessum krabbameinsskrám, hafa sýnt fram á verulegan mun á nýgengi og lifun meðal norrænna sjúklinga með blöðruhálskirtilskrabbamein. Í Danmörku reyndist nýgengi blöðruhálskirtils– krabbameins vera lægra, auk þess sem þessi sjúklingahópur lifði mun skemur. Aftur á móti hefur dánartíðni blöðruhálskirtilskrabbameinssjúklinga meðal Norðurlandaþjóðanna haldist svipuð frá miðjum 9. áratug síðustu aldar.
Þessi doktorsritgerð felur í sér rannsókn sem skoðar sérstaklega þá sjúklinga sem greindust með blöðruhálskirtilskrabbamein kringum árið 1997 en þá var Danmörk enn sér á báti varðandi nýgengi og lifun. Á rannsóknartímabilinu var blöðruhálskirtilskrabbamein þegar orðið algengasta krabbamein meðal íslenskra karlmanna en var í þriðja sæti meðal krabbameina hjá dönskum karlmönnum. Faraldsfræðilegar rannsóknir byggðar á gögnum frá krabbameinsskrám hafa ekki innihaldið klínískar upplýsingar og með því að afla þeirra á kerfisbundinn hátt veitir ritgerðin frekari skýringar á þessum mismun. Ennfremur er í ritgerðinni framkvæmt gæðamat á þeim klínísku upplýsingum sem höfðu verið tilkynntar til dönsku krabbameinskrárinnar kringum 1997 varðandi danska sjúklinga með blöðruhálskirtilskrabbamein.
Helstu niðurstöður sem komu fram í rannsókninni eru eftirfarandi:
Hlutfallsleg lifun sjúklingaþýða rannsóknarinnar var sambærileg við fyrri rannsóknir sem byggja á almennum gögnum úr krabbameinsskrám. Munurinn á hlutfalli sjúklinga með fjarmeinvörp við greiningu úskýrði að mestu leyti muninn á hlutfallslegri lifun milli landanna. Þegar leiðrétt var fyrir öðrum þáttum, s.s. i útbreiðslu sjúkdómsins, æxlisstigi (T-stigi) og PSA gildi, minnkaði eða hvarf munirinn alveg. Flestir þeirra sjúklinga sem greindust með staðbundið blöðruhálskirtils– krabbamein í Danmörku og á Íslandi höfðu upphaflega leitað læknis vegna neðri þvagvegaeinkenna. Í Danmörku var greiningin að langmestu leyti staðfest með heflun úr blöðruhálskirtlinum (TURP) en á Íslandi með grófnálarsýni úr blöðruhálskirtlinum. Íslensku sjúklingarnir voru yngri og fleiri greindust á fyrstu stigum sjúkdómsins, auk þess sem uppvinnsla þeirra var ítarlegri. Læknanleg meðferð og hormónameðferð var oftar veitt á Íslandi.
Svipuð þróun og hafði átt sér stað á Íslandi sást um fimm árum síðar í Danmörku, þ.e. hækkun á nýgengi blöðruhálskirtilskrabbameins, breytt aldursdreifing og hækkun á hlutfalli staðbundins krabbameins. Upplýsingar um stigun og meðferð sem bárust dönsku krabbameinsskránni voru ónákvæmar. Þetta kann að rýra gæði þeirra rannsókna sem byggjast eingöngu á gögnum frá krabbameinsskrám. Greiningardagur, sem tilkynntur var til dönsku krabbameinskrárinnar og sá sem skráður var úr sjúkragögnum, var sá hinn sami í 70% tilvika. Hins vegar höfðu um 95% tilfella minni en þriggja mánaða mun á tímasetningu greiningardags. Leiðrétting fyrir greiningardegi hafði engin áhrif á lifun.
Loks sýnir ritgerðin fram á að lifun danskra manna sem greindust með blöðruhálskirtilskrabbamein hefur aukist marktækt frá árinu 1997 fram til tímabilsins 2007-2013. Ástæður fyrir því geta að miklu leyti verið vegna greiningarforskotsbjögunar (lead-time bias) en einnig vægi nýrra lífslengjandi meðferða.
Doktorsritgerð - Inga Jóna Ingimarsdóttir - https://opinvisindi.is/handle/20.500.11815/399?show=full
Comments