top of page

Reif sig upp úr þrekleysinu eftir krabbamein og hefur ekki lengi verið í betra líkamlegu for

Árið 2009 varð ég 65 ára og hafði aldrei orðið misdægurt. Alltaf verið hraustur. En þetta vor fór eitthvað að gerast innan í mér sem ekki passaði. Kom í ljós við rannsókn að krabbameinshnútur hafði vaxið í gallgöngum og stíflað. Og ég fékk að fara á sjúkrahús í fyrsta skipti.

Í svona tilfellum þarf að gera stóraðgerð, svokallaða Whipple aðgerð sem tekur marga klukkutíma enda mikið að klippa og sauma. Gallblaðran fer, hluti af maganum, skeifugörnin alveg og hálft brisið. Ég var svo stálheppinn að meinið var alveg hreinsað út og þurfti enga eftirmeðferð, hvorki lyf né geisla. En þetta er mikið inngrip og meltingarfærin voru lengi að sætta sig við nýja uppröðun. Fjórar vikur lá ég inni á Landsspítalanum og léttist um 15 kíló. Fituforði minn var fátæklegur og þegar hann var búinn fór að étast af vöðvunum sem voru svo sem ekki merkilegir fyrir. Enda var ég orðinn að aumingja þegar ég kom heim. Fyrsta gönguferðin úti var ekki nema svona 50 metrar og aftur til baka.


Þá setti ég stefnuna á Höfðann. Hann er hér rétt við bæjardyrnar, passlega hár fyrir morgungöngu og mátulega erfiður til að halda ganglimum og lungum í nothæfu lagi. Eins kílómetra ganga héðan af dyrapallinum og upp að vörðunni sem er í 250 m hæð.


Það var komið haust og ég komst ekki á Höfðann fyrr en fór að vora. Fór nokkuð margar ferðir að mér fannst það ár og næsta. Setti mér það markmið 2012 að reyna að komast 50 ferðir. Þær urðu 87.

Síðan þá hef ég haft tölu á öllum mínum gönguferðum á Höfðann. Það er hvetjandi, maður vill helst ekki sjá afturför og að ferðum fækki frá síðasta ári. Það hefur tekist ágætlega, ég fór 150 ferðir á síðasta ári og í ágúst í sumar voru Höfðaferðirnar komnar þúsund frá því ég byrjaði að telja.


Ég er 76 ára, í hörkuformi. Ég þakka það gönguferðum á hverjum morgni í 40-60 mínútur, aldrei á sléttu malbiki. Því ósléttara og brattara upp og niður, því betra. Sem betur fer er fullt af skemmtilegum gönguleiðum hér svo óþarfi er að príla alla daga upp á Höfða. Helst samt svona þriðja hvern dag að meðaltali.


Ef til vill get ég þakkað krabbameininu mitt góða ástand, að ég varð að rífa mig upp úr vesöldinni. Og úr því ég komst lifandi frá því verð ég að sýna að ég hafi átt framlenginguna skilið.


Grein eftir Björn Ingólfsson

126 views0 comments

Comentários


bottom of page